Í frétt The Mail í gær segir að Mosaic Fashions hyggi á skráningu á hlutabréfamarkað í London á næsta ári í kjölfar 353 milljón punda yfirtöku á Rubicon Retail og að skráningin muni hljóða upp á 800 milljónir punda.

Derek Lovelock, forstjóri Mosaic Fashions, sagði í samtali við Viðskiptablaðið að allt of snemmt væri að segja til um hvaða stefnu Mosaic muni taka í framtíðinni.

Lovelock bendir á að yfirtakan á Rubicon væri enn ófrágengin, enn ætti eftir að samþætta rekstur Rubicon við Mosaic, afkoma sameinaðs fyrirtækisins þyrfti að verða stöðug og þá fyrst myndi fyrirtækið skoða hvaða möguleikar væru fyrir hendi.

Lovelock segir að möguleiki sé á að tvískrá fyrirtækið ef aðstæður verða réttar, en einnig að aðrir möguleikar væru í boði, en fyrirtækið muni ekki taka ákvörðun fyrr en að ári liðnu.

Lovelock segist vera ánægður með skráninguna á Íslandi og þeir hafi ekki íhugað að afskrá fyrirtækið hér.