Mosaic Fashions býður upp á gott fjárfestingartækifæri, segir greiningardeild Kaupþings í uppfærðu verðmati á félaginu en er engu að síður ekki mjög bjartsýn á afkomu félagsins til skamms tíma litið. Hefur greiningardeildin lækkað markgengið sitt í 21 krónu á hlut úr 24,5 en við lok markaðar í dag var gengi félagsins 14,95. Verðmats gengið er 19 krónur á hlut.

?Hlýtt veðurfar í Bretlandi, skortur á sterkum tískustraumum og lélegur gangur Oasis, eins stærsta vörumerki Mosaic, voru meðal annars orsök slakrar afkomu félagsins á þriðja ársfjórðungi. Við teljum að áhrifa þessara þátta muni gæta áfram á fjórða ársfjórðungi en auk þess hefur félagið veitt afslætti af vörum sínum fyrr en venjan er og teljum við að það muni hafa áhrif á afkomu þess á fjórðungnum,? segir greiningardeildin.

Hún segir að alþjóðleg sala fyrirtækisins sé alltaf að aukast og telur vaxtarmöguleika þess góða á mörkuðum utan Bretlands.

?Miðað við spá okkar er V/H gildi Mosaic fyrir næsta rekstrarár (07/08) 16,3x sem er 20,5% lægra en meðaltal þeirra félaga sem við berum Mosaic saman við. Munurinn er enn meiri árið eftir eða 30,3%. Við teljum að Mosaic eigi ekki skilið slíkan afslátt frá samanburðarhópnum og verðmatsgengi (DCF value) okkar upp á 19,0 (20,2) krónur á hlut styður það. Ef miðað er við verðmatsgengið fáum við V/H gildi 20,7x sem er í línu við samanburðarfélögin,? segir greiningardeildin