The Times greindi frá því í gær að talið sé að Mosaic Fashions sé nú í viðræðum við Mike Shearwood, sem er forstjóri Inditex í Bretlandi, um að fá hann til liðs við fyrirtækið.

Í fréttinni segir að Shearwood komi til greina til að taka við aðstoðarforstjórastöðu Mosaic, en heimildarmenn blaðsins telja að til lengri tíma muni forstjóri Mosaic, Derek Lovelock, taka við stjórnarformannsstöðu og Shearwood taka við forstjórastöðu áður en fyrirtækið verði svo skráð í Bretlandi.

En í fréttinni segir einnig að Shearwood gæti freistast til að halda stöðu sinni hjá Indirex, sem er stærsta tískusmásölufyrirtæki Evrópu.

Shearwood þykir sérlega fær á sínu sviði, en hann á meðal annars heiðurinn að því að koma spænska vörumerkinu, Zara, inn á Bretlandsmarkað, en 56 Zara verslannir eru nú í Bretlandi og á Írlandi.

Hann á einnig heiðurinn að því að koma þremur öðrum vörumerkjum Inditex á Bretlandsmarkað, en það eru Massimo Dutti, Pull and Bear og Bershka.

Mosaic er nú að styrkja starfsafla sinn samhliða þess að Baugur leggur lokahönd á 105 milljarða krónu yfirtökuboð í fyrirtækið, sem talið er að verði kynnt á næstu vikum, segir í fréttinni.

Baugur skráði Mosaic í Kauphöllina í júní 2005, en hefur haldið eftir 36,8% hlut. Fyrir um mánuði síðan tilkynnti Baugur að fyrirtækið hefði hug á að kaupa Mosaic aftur, ásamt fjárfestingarfélögum sem taldir eru vera Kaupþing og Kevin Stanford, stofnandi Karen Millen, að því er kemur fram í fréttinni.

Í júní síðastliðnum sameinaðist Mosaic við Rubicon, sem á Principles og Warehouse keðjurnar og er nú heildarsamsteypan með starfsemi á 1.605 stöðum um allan heim.