Mosaic Fashions skilaði rúmlega 500 milljón króna hagnaði á þriðja fjórðungi reikningsárs félagsins sem lauk 29. október síðastliðinn. Þetta er nokkuð minni hagnaður en meðalspá viðskiptabankanna sem spáðu 700 milljóna króna hagnaði. Í tilkynningu frá félaginu kemur fram að afkoman er betri en í fyrra þrátt fyrir erfitt ytra umhverfi smásölu.

EBITDA nam 14,7 milljónum punda á fjórðungnum sem er 4% aukning frá sama tíma í fyrra. Sala á fjórðungnum nam 98 milljónum punda og EBITDA framlegð því 15%. Það sem af er ári er hefur EBITDA vaxið um 12% frá fyrra ári.

Söluvöxtur Oasis og Coast var yfir 10% en sala Whistles jókst um 5% og Karen Millen um 4%.

Þrátt fyrir erfiðan ársfjórðung og áframhaldandi erfitt ytra umhverfi í smásölu væntir stjórn félagsins að EBITDA upp á 59 milljónir punda yfir árið verði náð. Áætlun félagsins sem gefin var út í tengslum við skráningu fyrirtækisins á íslenskan hlutabréfamarkað um mitt þetta ár stendur því óbreytt.