Breska tískuvöruverslunarkeðjan Mosaic Fashions, sem er að hluta til í eigu Baugs og er skráð í Kauphöll Íslands, hefur gert sölusamning við bandarísku undirfataverslunarkeðjuna Victoria's Secret um að selja undirfatalínu Oasis í verslunum og pöntunarlista fyrirtækisins, sagði talsmaður Mosaic Fashions í samtali við Viðskiptablaðið sem kom út í dag.

Baugur, ásamt Kaupþingi banka, stóð fyrir skráningu Mosaic Fashions í Kauphöllina Í fyrra. Félagið er eitt af fáum smásölufélögum sem hefur staðist væntingar í Bretlandi, þar sem mörg smásölufyrirtæki eiga undir högg að sækja vegna samdráttar í einkaneyslu.

Stjórnendur Mosaic Fashions greindu frá því nýlega að félagið mun standa við útgefna rekstraráætlun vegna góðs gengis í jólavertíðinni. Jólavertíðin skilaði þriggja prósentustiga hækkun á framlegð af vörusölu á þriðja ársfjórðungi, sé miðað við sama tímabil á fyrra rekstrarári, og var uppgjörið í takt við væntingar greiningaraðila.

Sérfræðingar segja samninginn jákvæða þróun fyrir félagið og að hann hjálpi félaginu að koma vörmerkjum sínum á framfæri í Bandaríkjunum. Einnig hefur verið talað um að opna Karen Millen-verslanir í Bandaríkjunum, samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins.

Undirfatalína Oasis, sem nefnist Odille, mun verða fáanleg í völdum Victoria Secret-verslunum og ásamt því að neytendur geta keypt vörumerkið í pöntunarlista fyrirtækisins. Victoria's Secret er í eigu bandaríska fyrirtækisins Limited Brands, sem skráð er á hlutabréfamarkað í Bandaríkjunum.

Rúmlega 1.000 Victoria Secret-verslanir eru starfræktar af Limited Brands og árleg sala félagsins nemur rúmlega þremur milljörðum Bandaríkjadala, eða um 200 milljörðum íslenskra króna. Stór hluti sölunnar er í gegnum pöntunarlista félagsins, sagði talsmaður Mosaic Fashions.