Endurskiplagning og óhagfelldir vindar í smásölubransanum höfðu talsverð áhrif á afkomu Mosaic Fashions, sem er félag í eigu Baugs, samkvæmt frétt Telegraph. Á árstímabili sem endaði 26. janúar skilaði Mosaic ríflega 30 milljóna punda tapi fyrir skatta. Á sama tímabili ári áður hagnaðist félagið um 17,2 milljónir punda.

Afskriftir óefnislegra eigna vógu þungt í afkomutölum Mosaic á tímabilinu sem og endurgreiðsla lána.

Derek Lovelock, forstjóri Mosaic, sagði í samtali við Telegraph að félagið hafa átt stormasamt ár. Miklar breytingar hefðu átt sér stað og sá tími sem hefði farið í þær hefði komið niður á öðrum hluta rekstrarins. Hann sagðist einnig viss um að félagið mundi komast í gegnum niðursveifluna og verða sterkara alþjóðlegt merki á eftir.

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnsliði og skatta, EBITDA, Mosaic á tímabilinu var óbreytt á milli ára, 71,9 milljónir punda.