Mosaic Fashions tapaði 4,8 milljónum punda (600 milljónir króna) fyrir skatta á fyrsta ársfjórðungi ársins, en félagið er með skakkt uppgjörsár, samanborið við 1,2 milljónir punda (150 milljónir króna) hagnað á sama tíma fyrir ári.

Sala félagsins jókst um 95% á fyrsta fjórðungi í kjölfar yfirtöku á Rubicon Retail á þriðja fjórðungi síðasta árs en pro forma aukning nam 4%. Salan nam 98,4 milljónum punda (12,3 milljarðar króna).

"Miklu munar um afskriftir af óefnislegum eignum félagsins eða um 1,4 milljón pund og virðast kaupin á Rubicon Retail hafa verið kostnaðarsamari en við áður áætluðum. Fjármagnsliðir voru í takti við væntingar okkar," segir greiningardeild Glitnis.

Undirvæntingum

Salan í Bretlandi var undir væntingum sem og afkoma Coast Principles.

"Framlegð af vörusölu var til að mynda um tveimur prósentustigum undir spá okkar sem gefur til kynna að verðlækkanir vegna slakrar hönnunar hafi átt sér stað. Betur gekk þó með Karen Millen og Whistles og var þar töluverðar söluaukningar vart," segir greiningardeildin.

Hún segir að sala utan Bretlands hafi gengið vel og aukist um 27% og eru nú um 18% af heildartekjum samstæðunnar.

"Gengi á núverandi fjórðungi hefur verið upp og ofan en maí var sérstaklega erfiður. Salan hefur þó aukist í júní en áfram er reiknað með erfiðum markaði innanlands. Horfur erlendis eru þó góðar og reiknað er með góðum vexti í sölu á netinu," segir greiningardeildin.

Líklegast á leið af markaði

Formlegt yfirtökutilboð barst í Mosaic Fashions upp á 17,5 krónur á hlut 22. júní, en það er 11,1% hærra verð en verið hefur síðustu sex mánuði, fram til 3. maí.

Þeir sem leggja tilboðið eru F-Capital ehf. (í eigu Baugs Group), Kaupthing Bank, Gnúpur fjárfestingafélag, Kevin Stanford, Karen Millen, The Millen Life Interest Settlement, Don M Limited, Tessera Holding auk stjórnenda Mosaic Fashions; Derek John Lovelock, Richard Spencer Glanville, Margaret Eve Lustman, John Egan, Sharon OConnor og Hannah Russell