Stjórn bresku tískuvöruverslunarkeðjunnar Mosaic Fashions, sem skráð er í Kauphöll Íslands, hefur lagt til að ekki verði greiddur arður til hluthafa fyrir rekstrarárið 2005-2006, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Í tilkynningunni segir að aðgreiðslur verði endurskoðaðar á næsta rekstrarári.

Einnig er lagt til að stjórn félagsins verði skipuð af Stewart Binne, núverandi stjórnarformanni, Derek Lovelock, forstjóra félagsins, Richard Glanville, fjármálastjóra, Gunnari Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Baugs í Bretlandi, og Þórdísi Sigurðardóttur, stjórnarformanni Dagsbrúnar.

Mosaic Fashions birti ársuppgjör sitt í apríl en fyrirtækið styðst ekki við almanaksárið.

Hagnaður eftir skatta nam 12,6 milljónum punda. Ef ekki er tekið með í reikninginn þann kostnað sem kom til vegna yfirtöku á bæði Karen Millen og Whistles er hagnaðurinn 18,8 milljónir punda.

Hagnaður eftir skatta árið á undan nam 2,4 milljónum punda og hefur hagnaðurinn því aukist um rúmlega 10 milljónir punda.