Breska tískuvöruverslunin Mosaic, sem að hluta til er í eigu Baugs, á nú í neyaðarviðræðum við Kaupþing vegna slæmrar stöðu félagsins í ljósi minnkandi sölu og erfiðrar samningsstöðu félagsins við birgja þess.

Þetta kemur fram á vef breska blaðsins Times í dag.

Í síðustu mánuðum hefur Mosaic átt í erfiðleikum með að tryggja viðskipti sín þar sem tryggingafélög hafa neitað félaginu um viðskipti með skuldatryggingar. Það hefur orðið til þess að birgjar fara í vaxandi mæli fram á staðgreiðslu viðskipta sem síðan veldur því að lausafjárstaða Mosaic fer þverrandi.

Þá greinir Times frá því að um þessar mundir er Mosaic ekki að greiða neitt af áætluðum 400 milljóna punda skuldum sínum þar sem skuldir félagsins eru undir umsjón skilanefndar Kaupþings. Times gefur í skyn að félagið hafi ekki getu til að greiða af lánum sínum vegna lausafjárstöðu þess.

Þá telur Times að ná þurfi samkomulagi um skuldir Mosaic á næstu mánuðum ef ekki á að fara illa. Náist það ekki er ljóst að skipa þarf tilsjónaraðila yfir félagið og setja stjórnina af. Það kann að hafa áhrif á aðrar verslanir Baugs, svo sem Debenhams og  House of Fraser.

Þá hefur Times eftir ónafngreindum heimildarmanni innan Baugs að vissulega stafi erfiðleikar að Mosaic en unnið sé að því að finna lausnir á stöðu félagsins til langs tíma. Þá segir viðkomandi að engar líkur séu á því að Mosaic verði sett í greiðslustöðvun.