Á undanförnum árum hefur fyrirtækjum í Kauphöll Íslands fækkað ört og hlutdeild fjármálafyrirtækja (mælt í markaðsvirði) aukist til muna. Nú hefur verið greint frá því að stefnt sé að skráningu breska félagsins Mosaic Fashions Ltd í Kauphöll Íslands. Félagið rekur verslanir sem sérhæfa sig í tískufatnaði fyrir konur og eru vörumerkin fjögur: Oasis, Coast, Karen Millen og Whistles.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að ekkert félag sambærilegt Mosaic er skráð í Kauphöllinni. Félagið yrði skráð í atvinnugreinaflokkinn "Neysluvörur" en þar er fyrir aðeins eitt fyrirtæki (Austurbakki) sem er á leið út úr Kauphöllinni. Áður en að Kauphöllin tók upp nýja atvinnugreinaflokkun samkvæmt staðli Morgan Stanley Capital International og Standard & Poors (GICS) var sambærilegur atvinnugreinaflokkur kallaður ,,Verslun og þjónusta". Þrjú félög voru lengst af innan þessa flokks en Húsasmiðjan var afskráð árið 2002, Baugur ári seinna og Austurbakki er á útleið eins og fyrr sagði. Því má reikna með að fjárfestar fagni nýjum valkosti, einkum lífeyrissjóðir og verðbréfasjóðir sem stefna að áhættudreifingu í söfnum sínum," segir í Morgunkorni Íslandsbanka.