*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Innlent 26. maí 2019 16:59

Mosfellsbær fjarri fullbyggður

Íbúum Mosfellsbæjar hefur fjölgað um átta prósent á ári undanfarin tvö ár.

Ritstjórn
Haraldur Guðjónsson

Uppbyggingin hefur verið mjög hröð. Íbúum í Mosfellsbæ hefur fjölgað um í kringum þúsund á ári síðustu ár og hverfið hefur verið uppistaðan í þeirri fjölgun ásamt Leirvogstungu. Sala í hverfinu hefur gengið mjög vel og hverfið er greinilega mjög vinsælt,“ segir Haraldur Sverrisson, bæjarstjóri í Mosfellsbæ, um uppbyggingu Helgafellshverfisins.

Um þrettán ára gamalt verkefni er að ræða en hverfið hafði verið deiliskipulagt fyrir hrun, gatnagerð fór af stað og nokkur hús risu. Efnahagshrunið setti hins vegar tímabundið strik í reikninginn og uppbyggingin var sett á ís um stundarsakir. Landið var ekki í eigu bæjarins heldur einkaaðila en kjölsog hrunsins dró eiganda landsins niður með sér. Bankinn tók landið yfir og í samstarfi við hann fór allt á fullt síðla árs 2013.

„Það hefur verið byggt á því deiliskipulagi og allt gert hratt. Fullgert á hverfið að vera um 1.100 íbúðir og núna eru um tveir þriðju þess tilbúnir. Þéttasti hlutinn, hið svokallaða „auga“, sem samanstendur aðallega af fjölbýlishúsum, er kominn. Síðan er nokkuð af sérbýlum þar í kring,“ segir Haraldur.

Síðustu hlutar hverfisins eru um þessar mundir í skipulagsferli en hverfið verður byggt upp í sex áföngum. Fyrstu þremur áföngunum er lokið og kaflar fjögur og fimm nú í deiliskipulagsferli. Í upphafi skipulagsvinnunnar, fyrir um áratug síðan, var nokkuð deilt um ágæti staðsetningar gatna inn í hverfið en síðan þá hefur framkvæmdin gengið smurt að sögn bæjarstjórans.

„Ég held að fólk sjái almennt nú að þetta er mjög vel heppnuð framkvæmd. Síðan allt fór í gang á ný hefur verið byggt hér við góðar undirtektir,“ segir Haraldur.

Nánar er fjallað um málið í Fasteignamarkaðnum, fylgiriti Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér