Vegna umræðu um lóðaúthlutun Mosfellsbæjar úr landi Sólvalla undir byggingu einkarekinnar heilbrigðisstofnunar og hótels á vegum MCPB ehf. hafa bæjaryfirvöld sent út tilkynningu þar sem bent er á að umrædd lóð sé skipulögð undir heilbrigðisstarfsemi í aðalskipulagi.

Því gangi úthlutunin eingöngu út á uppbyggingu á heilbrigðisþjónustu og/eða hótel, svo félagið hafi ekki kost á annars konar uppbyggingu á lóðinni.

Fyrirvarar settir í samninginn

„Samningurinn sem gerður var við MCPB ehf felur í sér tvo fyrirvara af hálfu Mosfellsbæjar. Annars vegar ber félaginu að leggja fram viðskiptaáætlun, upplýsingar um fjármögnun og tímaáætlanir í síðasta lagi 1. desember 2017.

Hins vegar þarf að hefja framkvæmdir innan tveggja ára frá undirritun samnings. Verði þessum skilyrðum ekki fullnægt er Mosfellsbæ heimilt að rifta samningnum,“ segir í yfirlýsingu sem Aldís Stefánsdóttir forstöðumaður þjónustu- og samskiptadeildar Mosfellsbæjar sendi frá sér.

Veðsetning óheimil

Jafnframt er tekið fram að ákveði séu í samningnum sem koma í veg fyrir veðsetningu lóðarinnar án samþykkis Mosfellsbæjar

Auk þess mun félagið sjálft standa straum af kostnaði við framkvæmdir eins og gatna- og lagnagerð, og að MCPB muni greiða ígildi gatnagerðargjalda sem nemi um 500 milljónum króna til bæjarins áður en framkvæmdir hefjist.