Hagnaður Mosfellsbakarís nam í fyrra um 60,5 milljónum króna, samanborið við 11,8 milljóna króna tap árið áður. Rekstrarhagnaður félagsins nam 10 milljónum króna, samanborið við 3,3 milljóna króna tap árið áður. Hagnaðurinn skýrist því að mestu leyti af um 49,3 milljóna króna jákvæðum gengismun sem kemur til vegna lækkunar lána á árinu. Bókfært bankalán í lok síðasta árs nam 32,7 milljónum króna en hafði í lok árs 2010 staðið í 85,5 milljónum króna.

Eigið fé félagsins var í árslok 2011 neikvætt um 35 milljónir króna en heildarskuldir félagsins námu á sama tíma um 83,8 milljónum króna. Mosfellsbakarí rekur í dag tvö bakarí og í nóvember í fyrra opnaði félagið súkkulaðiverslun í Aðalstræti. Félagið er í meirihlutaeigu hjónanna Ragnars Hafliðasonar og Áslaugar Sveinbjarnardóttur en þau stofnuðu það fyrir 30 árum.