Reiðir hluthafar í tískuvörukeðjunni Moss Bros hafa krafið stjórnarformann félagins svara og farið fram á að hann geri hreint fyrir sínum dyrum varðandi tengsl sín við Baug en eins og kunnugt hafði Baugur gert yfirtökutilboð í félagið en ákvað í síðasta mánuði að draga tilboð sitt til baka.

Breska blaðið Telegraph greinir frá því í dag að Andrew Moss, sem að sögn blaðsins segist tala fyrir hönd Moss fjölskyldunnar sagði á hluthafafundi í vikunni að Philip Mountford, stjórnarformaður Moss Bros hefði verið stillt upp við vegg af Baugi en að sögn blaðsins var mönnum heldur heitt í hamsi á fundinum.

„Það þurfa að vera ljós skil milli þín og annarra einstakra hlutahafa,“ sagði Moss en hann lagði fram á fundinum spurningar til stjórnar félagsins varðandi stefnu þess.

Baugur er enn stærsti hluthafinn í Moss Bros með um 30% eignarhlutfall að sögn blaðsins.

Sjá frétt Telegraph .