Moss-fjölskyldan, sem stofnaði breska bresku tískuvöruverslunarkeðjuna Moss Bros, undirbýr nú 112 milljón punda (15 milljarða króna) kauptilboð í fyrirtækið til að koma í veg fyrir hugsanlega yfirtöku Baugs, segir í grein í breska fagtímaritinu Retail Week.


Talið er að Baugur, sem ræður yfir rúmlega 28% hlut í fyrirtækinu í gegnum fjárfestingafélagið Unity Investments ásamt Kevin Stanford og FL Group, hafi áhuga á að kaupa Moss Bros.


Reiknað er með að Moss Bros, sem sérhæfir sig í tiskuvörum fyrir karlmenn, falli vel að rekstri Mosaic Fashions, sem er að hluta til í eigu Baugs og er skráð í Kauphöll Íslands. Moss Bros er skráð í kauphöllina í London. David Moss, einn af stofnendum fyrirtækisins sem var ýtt út úr stjórn fyrirtækisins árið 2001, mun leiða kauptilboð fjölskyldunnar, segir í Retail Week.


Blaðið segir Baug og samstarfsaðila bíða eftir fregnum af jólaverslun félagsins. Heimildarmenn Viðskipablaðsins innan Baugs segja að Moss Bros sé áhugavert fyrirtæki en að engar ákvarðanir hafi verið teknar um að gera kauptilboð.


Hins vegar er líklegt að Moss-fjölskyldan þurfi blessun Baugs og samstarfsaðila til að taka yfir Moss Bros þar sem Íslendingarnir ráði yfir 28,7% hlut. Einnig er líklegt að eigendur Unity Investments styðji forstjórann Philip Mountford ef Moss-fjölskyldan reynir óvinveitta yfirtöku.