Á meðal þeirra verkefna sem framundan eru hjá íslenska ríkinu er að móta stefnu um með hvaða hætti ríkið losar um eignarhluti sína í fjármálafyrirtækjum sem það hyggst selja. Þetta kemur fram í skýrslu fjármálaráðherra um endurreisn viðskiptabankanna sem kynnt var fyrir ríkisstjórn á föstudag.

Þar segir að það þurfi að koma fram „með hvaða hætti verður losað um eignarhluti í þeim tilvikum sem það verður gert og í hvaða tilvikum og í hve ríkum mæli ríkið hyggst eiga til eitthvað lengri framtíðar ákveðna kjölfestueignarhluti. Má í þessu samhengi hugsa sér að líta til fordæma frá Noregi þar sem mörkuð var stefna um eignarhald ríkisins á bönkum og stórfyrirtækjum“.