Ragnheiður Elín Árnadóttir, Iðnaðar- og viðskiptaráðherra, hefur ákveðið að setja í gang vinnu við mótun stefnu og framtíðarsýnar fyrir ferðaþjónustu á Íslandi. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef ráðuneytisins. Stefnumótunin verður unnin í samstarfi við Samtök ferðaþjónustunnar og annarra hagsmunaaðila.

Markmiðið er að byggja góðan grunn fyrir íslenska ferðaþjónustu og stuðla að samkeppnishæfni hennar á alþjóðlegum vettvangi til lengri tíma. Stefnt er að niðurstöður vinnunnar liggi fyrir í maí á næsta ári.

Í næstu viku hefst vinna verkefnahóps sem mun halda utan um verkefnið og ráðast í undirbúningsvinnu við að kortleggja stöðuna í íslenskri ferðaþjónustu út frá ýmsum gögnum, m.a. hagtölum og skýrslum sem þegar liggja fyrir um ferðaþjónustuna. Þá verður hugað að umgjörð ferðaþjónustunnar á Íslandi og tekið mið af þekkingu og þróun ferðaþjónustu erlendis, einkum þar sem vel hefur tekist til.