Landsbankinn var í Hæstarétti í morgun sýknaður af tæplega 42 milljóna kröfu einstaklings um endurgreiðslu á ofgreiddum vöxtum. Að mati dómsins missti stefnandi málsins, sem var eiginkona skuldarans og veðsali samkvæmt lánunum, rétt til að gera kröfu á bankann með því að hafa gert skuld sína upp árið 2016 án þess að gera fyrirvara við uppgjörið.

Í upphafi þessarar aldar tók eiginmaður stefnanda málsins tvö lán, annars vegar hjá Búnaðarbankanum sáluga og hitt hjá Landsbankanum. Fjárhæð þeirra var samtals sextíu milljónir króna. Síðar var lánunum breytt þannig að eftirstöðvar þess skyldu miðast við gengi japanska jensins. Árið 2005 eignaðist Landsbankinn skuldabréfið sem áður tilheyrði Búnaðarbankanum.

Í desember 2007 hætti lántaki að greiða af bréfunum tveimur. Í mars 2012 voru lánin endurreiknuð til lækkunar á grundvelli 110% leiðarinnar og á ný í ágúst 2013 í kjölfar af gengislánadómum Hæstaréttar. Niðurstaða síðari útreikningsins reyndist lántaka óhagstæðari en 110% leiðin og spratt af því dómsmál. Því lauk með dómi óáfrýjuðum dómi héraðsdóms þess efnis að höfuðstóll fyrra lánsins, upphaflega 20 milljónir króna tekið árið 2001, varð 13,4 milljónir en síðara lánsins varð 35,2 milljónir.

Eftir að dómur féll fór skuldari málsins fram á að greiða skuldirnar með þeim hætti að höfuðstóll lánsins væri sá sami og í ársbyrjun 2008 og að vextir vegna áranna 2008-12 væru fyrndir. Því hafnaði bankinn. Bauðst lántaki að gera skuldina upp með sölu fasteignar sem var veðandlags lánsins. Beðið var með að krefjast nauðungarsölu á eigninni, hún seld á almennum markaði og andvirðinu, 104,5 milljónum króna, ráðstafað til Landsbankans.

Í samkomulagi um þann gjörning segir að heildarskuld samkvæmt skuldabréfunum tveimur hafi verið 150,8 milljónir króna. Seinna meir hafi skuldararnir talið sig hafa ofgreitt með því uppgjöri þar sem inn í því hafi verið vextir sem hefðu verið fyrndir. Innheimtir vextir fyrir 31. október 2012 hefðu verið fyrndir og því bæri að fella þá niður og endurgreiða þá.

Ráðstafaði greiðslum án þess að gera fyrirvara við þær

Óumdeilt var í málinu að stefnandi málsins, eiginkona skuldarans, átti ekki aðild að fyrrgreindu samkomulagi. Í niðurstöðu Hæstaréttar segir að í því komi fram að aðilar hafi verið sammála um að það fæli í sér fullnaðaruppgjör skuldarinnar. Var þögn samkomulagsins um fyrningu vaxta túlkað á þann veg að fallið hefði verið frá þeim mótbárum sem skuldari hafði haft uppi áður.

„Áfrýjandi átti ekki beina aðild að umræddu uppgjörssamkomulagi eiginmanns síns og stefnda þótt það gerði ráð fyrir að hún ráðstafaði til stefnda greiðslu við sölu á veðbundinni eign sinni. Þá gekkst hún hvorki undir skyldur samkvæmt því gagnvart stefnda með yfirlýsingu þeirri sem hún gaf út né með öðru móti. Af því leiðir að hún gat eftir sem áður haft uppi allar mótbárur sem fyrir hendi voru gegn kröfum stefnda, enda var sá réttur hennar sem veðþola sjálfstæður eftir meginreglum fjármunaréttar og var hún ekki bundin af því þótt lántaki hefði fallið frá einhverri mótbáru gegn kröfum á hendur sér,“ segir í niðurstöðunni.

Það hafi hún hins vegar ekki gert heldur þess í stað ráðstafað greiðslu til bankans án þess að gera fyrirvara um hana þótt til þess hafi verið brýnt tilefni í ljósi aðdraganda málsins. Taldi dómurinn að konan hefði ekki getað fyrirvaralaust gert skuldina upp í trausti þess að geta síðar beint endurkröfu á lánveitanda.

Niðurstaða héraðsdóms og Landsréttar var á sama veg og Hæstaréttar en á lægri dómstigunum tveimur var konan dæmd til að greiða samtals 1,7 milljónir í málskostnað. Með dómi Hæstaréttar var málskostnaður felldur niður á öllum dómstigum.