Veiðifélagið Strengur, sem er að nær öllu leyti í eigu breska auðkýfingsins Jim Ratcliffe, mótmælir fyrirhugaðri rýmkun á forkaupsrétti ábúenda á jörðum. Þetta kemur fram í umsögn félagsins við frumvarp sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra þessa efnis.

Samkvæmt frumvarpinu er lagt til að forkaupsréttur ábúenda jarðar virkist ef breyting verður á eignarhaldi eða yfirráðum í félagi sem á jörðina. Lagt er til að þriðjungshlutur þurfi að taka breytingu svo rétturinn verði virkur.

Í umsögninni er á það bent að þriðjungsbreyting á eignarhlut þurfi ekki endilega að þýða að breyting verði á yfirráðum félags. Þá er einnig bent á það að fyrirhuguð breyting gæti haft það í för með sér að minnihluti félags gæti orðið til þess að félagi yrði lögskylt að selja fasteign í eigu þess. Ekki sé réttlætanlegt að vikið sé frá almennum meginreglum félagaréttar með þessum hætti án rökstuðnings.

„Ef talið er rétt að rýmka forkaupsrétt ábúanda að jörð þannig að hann virkist við breytingu á óbeinu eignarhaldi á jörðinni, væri nærtækt að miða einungis við breytingu á yfirráðum lögaðila sem á jörðina," segir í umsögninni. Að mati Strengs virðist hending ein hafa ráðið för við samningu frumvarpsins.