Hætta er á að frelsi í flutningi flugfarþega með rútum um Reykjanesbraut verði afnumið og einu fyrirtæki veitt einkaleyfi á að flytja farþega til og frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar að afloknu útboði Vegagerðarinnar og Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum (SSS), að því er segir á vefsíðu SA .

Samtök atvinnulífsins og Samtök ferðaþjónustunnar hafa mótmælt þessu fyrirhugaða fyrirkomulagi harðlega og hvatt Samkeppniseftirlitið til að skerast í leikinn. Að öðrum kosti verði málið kært til Eftirlitsstofnunar EFTA þar sem SA og SAF telja að um sé að ræða brot á grundvallarreglum evrópsks samkeppnisréttar.

Samtökin benda á að ekki sé þörf á að bjóða aksturinn út þar sem neytendur geti nú þegar valið á milli tveggja ferðaþjónustufyrirtækja og akstur á leiðinni sé arðbær. Virk samkeppni sé til staðar.

SSS hefur ákveðið að meðalfargjald fyrir aðra leið verði kr. 1,950 en kr. 3,500 fyrir báðar leiðir og sambandið ætlar sér að síðan að taka til sín 35% af uppgefnu meðalfargjaldi, að því er segir á vefsíðu SA.