Aðalfundur Landssambands veiðifélaga var haldinn í Menntaskólanum á Laugarvatni dagana 9. til 10. júní 2017. Landsfundurinn mótmælir harðlega áformum um „risalaxeldi erlendra og innlendra fjárfesta á norskum ógeltum laxi í opnum sjóvkvíum hér við land,“ segir í tilkynningu frá Landssambandi veiðifélaga. Aðalfundurinn telur að þessi áform stefni óspilltum stofnum villtra laxafiska í voða og séu í raun aðför að viðkvæmri náttúru Íslands. Fundurinn krefst þess að stjórnvöld stefni að því að einungis verði leyft sjálfbært eldi í lokuðum sjókvíum eða kerjum á landi þannig að eldið skaði ekki umhverfið.

Enn fremur bendir fundurinn á að tugþúsundir eldisfiska hafi sloppið undanfarið og gengið upp í ár, jafnvel fjarri eldisstöðvunum. „Það er því aðeins tímaspursmál þar til erfðamengun mun mælast í íslenskum laxastofnum. Fundurinn bendir á nýtt álit Erfðanefndar landbúnaðarins þar sem lagt er til að stöðvuð verði frekari útgáfa leyfa til sjókvíaeldis á laxi, þar á meðal þá tugi þúsunda tonna sem komin eru í formleg umsóknarferli,“ segir í ályktunum Landssambandsins.

Aðalfundurinn lýsir jafnframt ánægju með það að ákveðið hafi verið að framkvæma áhættumat vegna sjókvíaeldis við Ísland, en Ísland er fyrsta landið sem framkvæmir slíkt mat og önnur lönd hafa ákveðið að fylgja í kjölfarið. „Fundurinn leggur áherslu á að ákvarðanir og stefnumótun stjórnvalda um fiskeldi byggi á vísindalegri ráðgjöf og rannsóknum,“ segir einnig í fréttatilkynningunni.