„Stjórn Landssambands fiskeldisstöðva mótmælir harðlega sértækum styrkjum til einstakra aðila sem raska samkeppni í greininni." Þetta kemur fram í greinargerð sambandsins um fjárfestingarsamning ríkisstjórnarinnar við Matorku.Fulltrúar sambandsins afhentu atvinnuveganefnd greinargerðina á fundi í vikunni.

Fjárfestingarkostnaður Matorku vegna nýrrar fiskeldisstöðvar við Grindavík nemur um 1.200 milljónum króna. Samkvæmt samningnum við ríkið fær fyrirtækið 426 milljóna króna styrk í formi afsláttar af sköttum og opinberum gjöldum. Því til viðbótar hyggst ríkisstjórnin beita sér fyrir því að fyrirtækið fái 295 milljónir í þjálfunaraðstoð. Ef það gengur eftir fær Matorka 721 milljónir króna í styrk vegna fiskeldisstöðvarinnar. Það er 59% af heildarfjárfestingarkostnaðinum.

Í greinargerð Landssambands fiskeldisstöðva segir að fiskeldismenn fagni stuðningi við greinina. Aftur á móti þurfi slíkur stuðningur að vera í boði fyrir öll fyrirtæki í fiskeldi sem hyggist auka fjárfestingar í greininni og að stuðningurinn þurfi að vera á jafnréttisgrundvelli. Bent er á að að minnsta kosti 12 fiskeldisfyrirtæki stefni að frekari fjárfestingum í fiskeldi á næstu árum og samkvæmt heimildum Viðskiptablaðsins nema fyrirhugaðar fjárfestingar meira en 10 milljörðum króna.

Engin nýsköpun

„Ef stuðningurinn verður aðeins til eins eða fárra félaga veldur það samkeppnismismunun sem er óásættanleg fyrir þá sem eftir sitja," segir í greinargerðinni. „Auk þess getur framleiðsla frá fyrirtækjum sem nutu eða njóta stuðnings ríkisins valdið lækkun á markaðsverði afurða og haft mjög neikvæðar afleiðingar fyrir greinina."

Í greinargerðinni er bent á að í umsögn við nýtt frumvarp til laga um ívilnanir til fjárfestinga á Íslandi sé sérstaklega tekið fram að tilgangur ívilnana til svæða utan höfuðborgarinnar sé að jafna misvægi með því að styrkja byggð í landinu með nýsköpun og atvinnuþróun.

„Eins og þekkt er, er allt fiskeldi stundað á landsbyggðinni," segir í greinargerð Landssambands fiskeldisstöðva. „Það er engin nýsköpun í fiskeldi í þessum samningi milli ríkisstjórnarinnar og félagsins [Matorku] sem um er að ræða. Eldi í strandeldisstöð á laxfiskum hefur verið stundað á Íslandi í rúm 30 ár.  Þekking er því mikil í strandeldi og nær væri að fyrirhugaður þjálfunarstyrkur, 2 milljónir evra, yrði nýttur til að styðja við þekkingu í fiskeldisgreininni almennt í stað þess að beina þeim fjármunum til þjálfunar hjá einu fyrirtæki."

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .