*

föstudagur, 30. október 2020
Erlent 24. ágúst 2020 14:02

Mótmæla „Made in China“ tilskipun

Bandarísk stjórnvöld hafa gefið út tilskipun um að allur innflutningur frá Hong Kong sé merktur „Made in China“.

Ritstjórn
epa

Hong Kong hyggst andmæla kröfu Bandaríkjanna um að það breyti merkingum á útflutningi sínum í „Made in China“. Stjórnvöld héraðsins segja að tilskipun Bandaríkjanna, frá 11. ágúst síðastliðnum, brjóti gegn reglum Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) og að þau muni grípa til aðgerða fyrir vikið, að því er fram kemur í frétt Financial Times

„Nýju reglur Bandaríkjanna sem kveða um uppruna Hong Kong vara, lítilsvirðir stöðu Hong Kong sem aðskilinn meðlimur WTO og brýtur á reglum WTO,“ segir í fréttatilkynningu ríkisstjórnar sjálfstjórnarhéraðsins.

Bandarísk stjórnvöld eru með þessu að fylgja eftir forsetatilskipun Donald Trump frá því í júlí um að binda enda á sérstöðu Hong Kong þar sem héraðið „væri ekki lengur nægilega sjálfstjórnandi til að réttlæta ólíka meðferð í samanburði við Kína,“ segir í forboða ríkisstjórnarinnar. 

Tilskipunin segir að vörur framleiddar í Hong Kong og innfluttar til Bandaríkjanna þurfi að vera merktar með Kína sem upprunaland frá og með 25. september næstkomandi. Raunveruleg áhrif tilskipunarinnar verða líklega takmörkuð þar sem lítið er um beinan útflutning frá Hong Kong til Bandaríkjanna.

Af rúmlega 39 milljarða dollara útflutningi héraðsins til Bandaríkjanna á síðasta ári voru einungis 1,2% vara framleiddar í Hong Kong. Um 80% voru endurútflutt frá Kína til Bandaríkjanna, samkvæmt tölfræðistofnun Hong Kong. 

Stikkorð: Hong Kong Made in China