Forstjórar Húsasmiðjunnar og Byko segja staðhæfingar ASÍ um að niðurfelling vörugjalda á byggingavöru um síðustu áramót hafi ekki skilað sér til neytenda vera rangar. Átti niðurfellingin að skila um 15 prósenta lækkun, en RÚV greinir frá málinu.

Auk afnáms vörugjalda á ýmsum byggingarvörum um áramótin síðustu var efra þrep virðisaukaskattsins lækkað úr 25,5 prósentum í 24 prósent. Verðlagseftirlit Alþýðusambandsins segist þó hafa komist að þeirri niðurstöðu að afnám vörugjaldanna og lækkun virðisaukaskatts hafi ekki skilað sér út í verðlagið.

Því hafnar Árni Stefánsson, forstjóri Húsasmiðjunnar, og segir að strax í október í fyrra hafi verð á fjölmörgum vörum sem báru vörugjöld verið lækkað.

Sigurður Brynjar Pálsson, forstjóri BYKO, segir að útreikningar ASÍ komi sér á óvart. Báðir forstjórararnir benda á að aðeins hluti byggingarvara hafi borið vörugjöld. Í BYKO nemi þær aðeins um 12 prósent af heildarveltu og 5 til 10 prósent af grófu byggingarvörunni. Timbur, spónaplötur, einangrun, handverkfæri og rafmagsverkfæri hafi ekki borið vörugjöld. Árni segist ekki vita hvernig vísitala ASÍ er samansett: „Þetta er væntanlega bara brot af þeim vörum sem að teljast til byggingavara sem áður báru vörugjöld.“