Hundruðir bensínstöðva í Frakklandi standa tómar eftir að mótmælendur hafa lokað aðgengi að fimm olíuvinnslustöðvum til að mótmæla umbótum á vinnumarkaðslöggjöf landsins. Víða mynduðust raðir við bensínstöðvar, þá sérstaklega í norður og vesturhluta landsins, en einnig í París sjálfri, á sama tíma og samgönguráðherra landsins neitar því að yfirvofandi sé bensínskortur.

Neyðarákvæði beitt

Alla vikuna hafa verið mótmæli víða í Frakklandi eftir að ný vinnumarkaðslöggjöf var þröngvuð í gegnum þingið með beitingu sérstaks neyðarákvæðis í stjórnarskránni. Sósíalíska ríkisstjórnin fór þá leið fyrr í mánuðinum til að hindra að tugir þingmanna eigins flokks gætu sett stein í götu lagabreytinganna, en sú ákvörðun vakti mikla reiði andstæðinga laganna og hafa átök brotist út í kjölfarið. Í miðborg Parísar sluppu til að mynda tveir lögregluþjónar naumlega þegar kveikt var í bíl þeirra.

Talsmaður CGT verkalýðsfélagsins sem lýsti því yfir að starfssemi í 5 olíuhreinsistöðvum hefði verið stöðvuð sagði að: „markmiðið er ekki að skapa olíuskort, heldur er markmiðið að tryggja afturköllun verkalýðslaganna.“

Átök við lögreglu

Lögregluna þurfti til að opna fyrir olíubirgðastöðvar sem mótmælendur höfðu lokað dögum saman en Manual Valls forsætisráðherra landsins lýsti því yfir að öllum ætti að vera ljóst að ríkisstjórnin myndi gera sitt ýtrasta til að koma í veg fyrir skort.

Samt sem áður voru um 1600 af um 12000 bensínstöðvum landsins annað hvort orðnar tómar eða nálægt því seint á mánudagsmorgun. Samtök olíuiðnaðarins UFIP lýsir því yfir að þeir hefðu yfir að ráða nægum birgðum en gætu ekki dreift þeim á eðlilegan hátt meðan fjármálaráðherra Frakklands, Michel Sapin hefur fordæmt lokun olíuhreinsistöðvanna og segir þær ólöglegar.

Umbætur ætlaðar til að hvetja til frekari ráðninga

Í meginatriðum snerust umbæturnar á verkalýðslöggjöfinni um að auka sveigjanleika vinnumarkaðarins. Þó 35 stunda vinnuvikunni væri viðhaldið, þá felst breytingin í því að lýta megi á hana sem meðaltal, þannig að fyrirtæki geti samið um allt að 46 stunda vinnu sumar vikur en minni aðrar þá á móti. Einnig að fyrirtæki geti lækkað laun sem og þau gera þeim auðveldara fyrir að segja fólki upp en það lýtur ströngum reglum í Frakklandi. Einnig verður þeim gefinn aukinn sveigjanleiki í að semja um frídaga eða frí í kringum barneignir og giftingar. Vonir standa til að þessar breytingar hvetji fyrirtæki til að ráða til sín fólk og þannig dragi úr atvinnuleysi.