Sigurður G. Guðjónsson
Sigurður G. Guðjónsson
© Haraldur Jónasson (VB MYND/HARI)
Sérstakur saksóknari hefur farið fram á gæsluvarðhald yfir Sigurjóni Þ. Árnasyni, fyrrum bankastjóra Landsbankans, og Ívari Guðjónssyni, fyrrum forstöðumanni eigin viðskipta bankans. Mennirnir tveir voru leiddir fyrir héraðsdómara seint í gærkvöldi. Dómarinn tók sér umhugsunarfrest og mun tilkynna um úrskurð sinn síðar í dag. Sigurjón og Ívar voru í kjölfarið færðir í fangageymslur þar sem þeir eyddu nóttinni.

Samkvæmt upplýsingum frá lögmanni Sigurjóns Árnasonar, Sigurði G. Guðjónssyni, var kröfum um gæsluvarðhald mótmælt. Héraðsdómur Reykjavíkur mun úrskurða um kröfuna klukkan 14 í dag.

Mennirnir tveir voru færðir til yfirheyrslu hjá sérstökum saksóknara í gærmorgun ásamt fimm öðrum fyrrum starfsfélögum þeirra. Auk þess framkvæmdi embættið húsleit á þremur stöðum. Embætti sérstaks saksóknara hefur fólkið grunað um brot á auðgunarbrotakafla hegningarlaga í tengslum við ráðstafanir á fjármunum Landsbankans fyrir bankahrun og brot á lögum um verðbréfaviðskipti. Grunur leikur á um stórfellda markaðsmisnotkun.