Síminn hefur sent frá sér yfirlýsingu vegna ummæla Skarphéðins Berg, stjórnarformanns Norðurljósa: "Í Fréttablaðinu 5. september er viðtal við stjórnarformann Norðurljósa, Skarphéðinn Berg Steinarsson um stafrænt sjónvarp. Í viðtalinu segir stjórnarformaðurinn að sjónvarpsefni verði í auknum mæli sent út í gegnum dreifikerfi símafyrirtækja. Síminn tekur undir það. Ennfremur er haft eftir stjórnarformanninum að kaup Símans á enska boltanum og ríflega fjórðungshlut í Skjá einum geri það að verkum að Norðurljós fari ekki í samstarf við Símann um uppbyggingu á stafrænu sjónvarpsdreifikerfi Símans. Ekki er vitað til að Skarphéðinn hafi leiðrétt þessi ummæli og verða þau því að skoðast rétt eftir höfð."

Í yfirlýsingunni segir ennfremur: "Þau vekja fullkomna furðu, því Norðurljós slitu í júní síðastliðnum viðræðum við Símann um stafræna dreifingu á efni Norðurljósa, nokkrum mánuðum áður en kom til fyrrnefndra kaupa Símans. Ennfremur hafa Norðurljós nýlega kynnt áform sín um stafrænt sjónvarp um eigið dreifikerfi.

Síminn hefur rætt við öll sjónvarpsfyrirtækin á Íslandi á þessu ári um dreifingu stafræns sjónvarpsefnis og gagnvirka þjónustu. Lengst voru komnar viðræður Símans við Norðurljós, sem forstjóri og stjórnarformaður Norðurljósa leiddu fyrir hönd fyrirtækisins, þegar Norðurljós slitu viðræðunum.

Síminn hefur mikla trú á stafrænni dreifingu á gæðaefni um fjarskiptakerfi sitt (ADSL kerfið og ljósleiðarakefið, stundum nefnt breiðband), og því ákvað Síminn að falast eftir efni enska boltans og Skjás eins. Ennfremur hefur Síminn endurvarpað erlendum sjónvarpsstöðvum Breiðvarpsins stafrænt um tveggja ára skeið, og áformar að leggja það til í efnisveitu og bjóða einnig fram á ADSL kerfinu, þegar það verður orðið hæft til stafræns sjónvarps. Þess má geta að rætt var við Norðurljós um að leggja Breiðvarpsrásirnar í efnisveitu utan Símans, áður en viðræðunum var slitið af þeirra hálfu. Þá mun Síminn halda áfram að ræða við fleiri efnisveitendur um samstarf og áður en langt um líður mun einnig verða hægt að bjóða upp á gagnvirka þjónustu, m.a. tónlist og leiki, með stafrænni fjarskiptatækni. Síminn vonast til þess að umræðan um stafrænt sjónvarp geti orðið málefnaleg á nýjan leik."