Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Brussel hafði sambandi við skrifstofu José Manuel Barroso, forseta framkvæmdastjórnar ESB til að mótmæla orðum sem Barroso lét fall um íslenska bankahrunið þegar hann var staddur á Írlandi fyrir tæpum hálfum mánuði.

Forsaga málsins er sú að þann 23. september s.l. var Barroso í heimsókn á Írlandi en sem kunnugt er gengur Írar að kjörborðinu um helgina til að kjósa um samþykki Írlands við Lissabon sáttmálann.

Fjölmiðlar á Bretlandi greindu frá því að Barroso hefði meðal annars varað Íra við því að þeir gætu hlotið sömu örlög og Íslendingar þegar talið barst að efnahagserfiðleikum.

Þannig hafði breska blaðið Times eftir Barroso að Íslendingar hefðu komið að tómum hraðbönkum við bankahrunið fyrir ári síðan og varaði jafnframt við því að hið sama gæti átt sér stað á Írlandi.

Viðskiptablaðið spurðist fyrir um viðbrögð utanríkisþjónustunnar við þessum ummælum Barroso.

Samkvæmt upplýsingum frá utanríkisráðuneytinu hafði Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra í Brussel samband símleiðis við skrifstofu Barroso og mótmælti þessum orðum forseta framkvæmdastjórnarinnar. Jafnframt var farið fram á að slík ummæli yrðu ekki látin falla aftur.