Um leið og Apple kynnti iPhone árið 2007 breyttust allar hugmyndir manna um síma. Hnapparnir viku fyrir snertiskjáum og þannig hefur það verið síðan. Jú, upplausnin hefur aukist, framleiðendur hafa reynt fyrir sér með raddstýringu og svo framvegis, en almennt hafa símarnir orðið hver öðrum líkari og verulegar framfarir fátíðar.

Google vonar að Moto X muni skera sig úr fjöldanum og sýna að enn sé nóg af nýjungum eftir í snjallsímum. Það er athyglisvert að Moto X er hvorki með nýjasta og hraðasta örgjörvann né nýjasta og flottasta skjáinn. Motorola-menn segja að hvort tveggja sé nógu gott og almennt hafa menn tekið undir það.

Á hinn bóginn eru fimm meiri háttar nýjungar í Moto X, sem gætu gert gæfumuninn. Til dæmis erboðið upp á ótal litasamsetningar, þannig að menn geti hannað eigin síma. Síðar á árinu bætast við bakhliðar úr fleiri efnum, þar á meðal viði.