Fjarskiptafyrirtækið Motorola greindi frá því í gær að félagið hefði tapað um 28 milljónum Bandaríkjadala á öðrum ársfjórðungi. Sölutekjur Motorola drógust saman um 19% og námu samtals 8,73 milljörðum dala. Afkoman var í samræmi við þá afkomuviðvörun sem fyrirtækið sendi frá sér í síðustu viku.

Samkeppni á farsímamarkaðinum reyndist Motorola áfram erfið á ársfjórðungnum og félagið gerir ekki ráð fyrir því að skila hagnaði á núverandi rekstrarári. Gengi hlutabréfa Motorola hækkuðu um eitt prósent í kjölfar afkomutilkynningarinnar.