Frosti Sigurjónsson, formaður efnahags- og viðskiptanefndar alþingis, segist ekki styðja breytingar á virðisaukaskatti eins og þær hafa verið settar fram hingað til. Þær mótvægisaðgerðir sem kynntar hafi verið dugi ekki til að leiðrétta hækkun matarskatts.

Þetta sagði Frosti í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Aðspurður sagðist Frosti einungis styðja hækkun matarskatts ef mótvægisaðgerðirnar leiði til kjarabóta fyrir alla í samfélaginu. Mótvægisaðgerðir sem rætt hefur verið um í þessu samhengi eru til dæmis hækkun persónuafsláttar og barnabóta.

Fyrirhuguð hækkun matarskatts úr 7% í 12% er afar umdeild. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur til að mynda sagt að það komi til greina að falla frá hækkuninni. Frumvarp um breytingar á virðisaukaskatti er nú til umfjöllunar hjá efnahags- og viðskiptanefnd.