Stríðari vindar á mörkuðum setja nokkuð mark sitt á uppgjör Føroya Banka en afkoman var verulega undir spám.

Þess ber þó að geta, þegar uppgjör bankans er sett í samhengi við uppgjör íslensku bankanna, að á hinum færeyska bæ er engum gengishagnaði vegna falls íslensku krónunnar til að dreifa, sem hífði verulega upp niðurstöðuna, að minnsta kosti hjá bæði Kaupþingi og Landsbanka.

Það er því engum tilfallandi liðum til að dreifa til að vega upp á móti lækkun á mörkuðum, sem endurspeglast í verulegu gengistapi hjá sem var raunar alveg í takt við lækkun úrvalsvísitölunnar í Kaupmannahöfn.

En nóg um það: Hagnaður Føroya Banka fyrir skatta á fyrsta fjórðungi ársins nam 15,4 milljónum danskra króna, eða um 245 milljónum íslenskra króna á móti 45,7 milljónum danskra á síðasta fjórðungi í fyrra, en mikil sveifla varð á gengisliðum milli fjórðunganna eða nær 19 milljónir danskra króna sem ásamt með samdrætti í hreinum þóknanatekjum skýrir að mestu leyti minnkandi hagnað Føroya Banka.

Bæði tekjur og hagnaður bankans eftir skatta voru verulega undir spám greiningardeildanna – meðalspá þeirra hljóðaði upp á 33 milljóna danskra króna hagnað eftir skatta en hann reyndist vera tæplega 12 milljónir.

Hreinar vaxtatekjur Føroya Banka stóðu nær algerlega í stað á milli fjórðunga en hreinar þóknanatekjur drógust saman um 7% milli tímabila. Þá voru gengisliðir og aðrar tekjur neikvæðar um 17 milljónir en voru jákvæðar um tæpar sjö milljónir á fjórða ársfjórðungi.

Þá nam tap af dóttur- og hlutdeildarfélögum um 4,3 milljónum á móti 5,3 milljónum danskra króna. Eiginfjárstaða Føroya Banka er afar traust en eiginfjárhlutfall hans 18% .