Móðurfélag Atorku Group hagnaðist um 6,74 milljarða króna árið 2006 og jókst hagnaðurinn um 352% á milli ára, en samkvæmt samstæðureikningi tapaði félagið 486 milljónum, samanborið við hagnað upp á 1.489 milljónir króna árið 2005. Á árinu hefur verið fjárfest í endurskipulagningu sem hafði í för með sér einskiptiskostnað í samstæðunni sem nemur samtals 499 milljónum króna.

Móðurfélagið

Hagnaður móðurfélagsins á fjórða ársfjórðungi var 1,31 milljarður króna og jókst um 54,4% frá fyrra ári
Heildareignir móðurfélagsins voru 43 milljarðar króna í lok árs og jukust um 115% á milli ára og eigið fé jókst um 76,8% í 17,2 milljarða króna. Arðsemi eigin fjár nam 69,2% og eiginfjárhlutfall var 40%.

Samstæðureikningur

Afkoma samstæðureiknings miðast við 31.12.2006 og því koma fyrirtækjakaup á árinu að fullu inn í efnahaginn. Þau koma hins vegar ekki inn í rekstur nema frá kaupdegi. Á árinu keypti Promens, dótturfélag Atorku, fyrirtækin EPI og Polimoon og kemur rekstur þessara fyrirtækja ekki inn í samstæðu Atorku fyrr en 30. apríl 2006, vegna EPI, og 27. desember 2006 vegna Polimoon.
Á árinu hefur verið fjárfest í endurskipulagningu sem hafði í för með sér einskiptiskostnað í samstæðunni sem nemur samtals 499 milljónum króna.

Á árinu féll til einskiptiskostnaður 376 milljónir króna vegna kaupa á Polimoon sem er gjaldfærður.
Veruleg veiking krónunnar hafði umtalsverð áhrif á fjármagnskostnað samstæðunnar.

Tap ársins í samstæðureikningum Atorku Group hf., var 486 milljónir króna, sem skýrist m.a. af framangreindum útgjöldum.

Tekjur ársins voru 31,6 milljarðar króna, eigið fé var 12,3 milljarðar í lok árs, en 9,9 milljarðar í upphafi árs. Heildareignir samstæðunnar í árslok voru 99,3 milljarðar.

EBITDA Jarðborana var 1.426 milljónir króna sem er aukning um 21% frá fyrra ári

Reikningsskil

Atorka Group birtir bæði móðurfélagsuppgjör og samstæðuuppgjör sem hvoru tveggja eru gerð í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla IFRS. Vegna munar sem gildir samkvæmt IFRS um gerð móðurfélags- og samstæðuuppgjöra er munur á afkomu móðurfélags og samstæðu. Atorka Group hf telur að fjárfestar verði að kynna sér bæði uppgjörin til að fá rétta mynd af stöðu félagsins.

Í móðurfélagsreikningi eru allar fjárfestingar, þar með taldar fjárfestingar í dótturfélögum metnar á gangvirði (e. fair value). Breytingar á gangvirði á tímabilinu eru færðar í rekstrarreikning, þar með taldar gangvirðisbreytingar og arðstekjur frá dótturfélögum. Hins vegar er ekki tekið tillit til afkomu rekstrar hvers og eins dótturfélags á tímabilinu.
Í samstæðureikningi er beitt hlutdeildaraðferð og samstæðureikningsskilum þar sem rekstrarleg afkoma hvers og eins dótturfélags ásamt afkomu móðurfélags, án gangvirðismats á dótturfélögum, er lögð saman og myndar afkomu tímabilsins.

Greiningu á mismunandi afkomu móðurfélagsins annars vegar og samstæðunnar hins vegar er að finna í skýringu 2.1 í báðum ársreikningunum.