Samkeppniseftirlitið hefur úrskurðað að eignarhaldsfélagið Fengur, móðurfélag Iceland Express, skuli greiða 10 milljóna króna stjórnvaldssekt fyrir brot á samkeppnislögum. Ferðaskrifstofa Íslands á og rekur Sumarferðir, Plúsferðir og Úrval-Útsýn.

Þetta kemur fram á vef Samkeppniseftirlitsins en Feng er gert það að sök að brjóta gegn banni samkeppnislaga við því að samruni komi til framkvæmda áður en eftirlitið hefur heimilað hann.

Fram kemur að Fengur og Samkeppniseftirlitið gerðu sátt í málinu.

Forsaga málsins er sú að Þann 7. júlí 2009 barst Samkeppniseftirlitinu samrunatilkynning vegna yfirtöku Eignarhaldsfélagsins Fengs á öllu hlutafé í Ferðaskrifstofu Íslands. Það var mat Samkeppniseftirlitsins að umrædd yfirtaka fæli í sér samruna í skilningi samkeppnislaga og að samruninn félli undir samrunaeftirlit laganna, þar sem veltuskilyrði væru uppfyllt.

Keyptu Ferðaskrifstofu Íslands í upphafi árs

Til upprifjunar þá var tilkynnt í byrjun árs að Iceland Express, dótturfélag Fengs, hefði keypt allt hlutafé í Ferðaskrifstofu Íslands. Viðskiptablaðið hafði þá eftir Matthías Imsland, forstjóra Iceland Express að rekstur félaganna yrði aðskilinn en þó mætti vænta samlegðaráhrifa varðandi nýtingu á flugvélum og þjónustukerfum.

„Þetta eru sterk vörumerki en staða Ferðaskrifstofu Íslands var orðin gríðarlega slæm. Við mátum það þannig að það væri mikilvægt fyrir markaðinn í heild sinni að þeir yrðu áfram á markaðinum til að aðrir á þessum markaði yrðu ekki of stórir eða sterkir,“ sagði Matthías í samtali við Viðskiptablaðið.

Þá kom jafnframt fram að viðskipti Iceland Express og Ferðaskrifstofu Íslands hefðu aukist s.l. vetur og var til dæmis samið um að Icelanda Express sæi um allt flug til Tenerife.

Fyrir ári síðan var hlutafé Iceland Express aukið en stærsti eigandi félagsins, Eignarhaldsfélagið Fengur, lagði því þá til nýtt hlutafé.

Fengur viðurkenndi brotið og leitaði sátta

Á vef Samkeppniseftirlitsins kemur fram að í samkeppnislögum er lagt bann við því að samruni komi til framkvæmda áður en tilkynnt hefur verið um hann til Samkeppniseftirlitsins og ákvörðun eftirlitsins liggur fyrir um hvort samruninn hindri virka samkeppni, nema til komi sérstakt leyfi Samkeppniseftirlitsins. Þessari reglu sé ætlað að tryggja að unnt sé með fullnægjandi hætti að vinna gegn samkeppnishamlandi samrunum. Þá sé sérstaklega gert ráð fyrir því í samkeppnislögum að lögð séu viðurlög á fyrirtæki sem brjóta gegn þessari reglu.

Þá kemur fram að Samkeppniseftirlitið tilkynnti Feng það mat sitt að svo virtist sem brotið hefði verið gegn banni samkeppnislaga við framkvæmd á samruna Fengs og Ferðaskrifstofu Íslands. Í framhaldi af því leitaði Fengur til eftirlitsins og óskaði eftir því að sátt yrði gerð í málinu. Viðræður leiddu til þess að sátt var gerð við félagið líkt og Samkeppniseftirlitinu er heimilt samkvæmt samkeppnislögum.

Sjá nánar á vef Samkeppniseftirlitsins og einnig í tengdum fréttum hér að neðan.