HIG ehf., móðurfélag innflutnings- og þjónustufyrirtækisins Íshluta ehf., hefur keypt allt hlutafé Ræsis hf. og Ræsis fasteigna hf., sem á og rekur nýjar höfuðstöðvar Ræsis við Klettháls 11 í Reykjavík.

Ræsir hf var stofnað 1942. Fyrirtækið flutti starfsemi sína um mitt ár 2007 í nýtt og glæsilegt húsnæði að Krókhálsi 11 í Reykjavík, frá Skúlagötu 59, þar sem fyrirtækið hafði verið frá upphafi. Fyrirtækið sinnir nú alhliða þjónustu við eigendur Mercedes-Benz, Mazda og Chrysler.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá HIG ehf.

Þar segir jafnframt að hluthafar í Ræsi og Ræsi fasteignum, sem eru um sjötíu talsins, fái greitt með hlutafé í HIG. Kaupin eru gerð með fyrirvara um samþykki hluthafafunda í öllum félögum.

Markmið viðskiptanna er að styrkja tekjugrunn félaganna með aukinni hagkvæmni og framlegð í rekstri og bættri nýtingu húsnæðis og starfsfólks, sem gefi félögunum tækifæri til enn frekari eflingar í allri starfsemi þeirra. Starfsemi Íshluta í Mosfellsbæ verður flutt að Kletthálsi 11. Um áttatíu starfsmenn eru hjá sameinuðu fyrirtæki.

HIG ehf. á einnig Vélval ehf., sem sérhæfir sig í leigu á stórum vinnuvélum, og Vélafl ehf., sem er umboðsaðili vinnuvéla frá Hyundai hér á landi.

Í fréttatilkynningunni segir að eigendur HIG ehf. séu Hjálmar Kristinn Helgason og fjölskylda.

Íshlutir voru stofnaðir árið 1998 og sérhæfir fyrirtækið sig í sölu og þjónustu við notaðar vinnuvélar á íslenskum verktakamarkaði, einkum frá Hitachi, Bell, Metso, FRD, Atlas Copco og Neuson.

Starfsemi allra félaga verður rekin undir eigin merkjum fyrst um sinn en starfsemin verður síðar sameinuð undir einu þaki við Klettháls 11.