Móðurfélag Landic Property hættir starfsemi og hyggst leita nauðasamninga við kröfuhafa. Félagið hefur samið við NBI (Landsbankann), Nýja Kaupþing, Íslandsbanka, Glitni, Haf Funding og Byr um fjárhagslega endurskipulagningu íslenska fasteignafélagsins Landic Property Ísland og dótturfélaga.

Samningarnir tryggja áframhaldandi rekstargrundvöll innlends fasteignasafns Landic Property sem samanstendur af 120 fasteignum, yfir 400 þúsund fermetrum, einkum verslunar- og skrifstofuhúsnæði miðsvæðis í Reykjavík. Landic Property Ísland er stærsta fasteignafélag landsins en meðal eigna félagsins eru Kringlan og Hilton Reykjavík Nordica. Landic Property Ísland er nú í meirihlutaeigu íslenskra banka. Eignir félagsins eru um 90 milljarða króna virði. Viðar Þorkelsson hefur verið ráðinn forstjóri Landic Property Ísland og Einar Þorsteinsson hefur verið ráðinn fjármálastjóri félagsins.

Starfsemi móðurfélagsins, Landic Property hf., hefur nú verið hætt og hefur stjórn þess óskað eftir heimild til nauðasamningsumleitana við lánardrottna.

Um mitt ár 2008 voru eignir Landic Property hf., að stærstum hluta fasteignir á Norðurlöndunum. Mikil hækkun skulda vegna falls íslensku krónunnar og lækkun fasteignaverðs í kjölfar efnahagshrunsins setti rekstur móðurfélagsins í uppnám og hefur félagið verið í greiðslustöðvun síðan 16. apríl 2009. Var eigið fé Landic Property þá orðið neikvætt. Fulltrúar kröfuhafa tóku sæti í stjórn félagsins og eigendur viku. Síðastliðna 12 mánuði hafa  stjórnendur, í samvinnu við kröfuhafa, unnið að því að verja íslenska starfssemi félagsins og losa um erlendar eignir og veðskuldir en í því ferli hefur meðal annars verið gengið frá sölu á eignasöfnum félagins í Danmörku og Finnlandi.

Eftirstandandi óveðsettar eignir móðurfélagsins Landic Property hf. nema nú rúmlega 5 milljörðum króna, en skuldir við ótryggða kröfuhafa eru taldar nema um 120 milljörðum króna. Stjórn félagsins telur að hagsmunum kröfuhafa sé best borgið með því að kröfuhöfum verði afhentar allar eignir móðurfélagins fyrir atbeina nauðasamninga og félaginu slitið. Kröfuhafar sem fara með yfir 76% af upphæð krafna hafa lýst yfir stuðningi við umsókn um heimild til nauðasamningsumleitana sem lögð var fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í dag.

Viðar Þorkelsson, forstjóri Landic Property Ísland: „Það er vissulega ánægjulegt að tekist hefur að verja rekstur íslenska rekstrarfélagsins, enda var það yfirlýst markmið þeirra björgunaraðgerða sem staðið hafa yfir allt þetta ár. Landic Property Ísland býr að vönduðu eignasafni og reksturinn er tryggur. Á sama tíma eru það vonbrigði að lánardrottnar og hluthafar Landic Property hf. verða fyrir jafnmiklu tjóni eins og raun ber vitni. Það er þó mitt mat að með samvinnu við kröfuhafa og samstilltu átaki starfsmanna hafi tekist að bjarga því sem bjargað varð og færi ég þessum aðilum kærar þakkir fyrir þeirra framlag við erfiðar aðstæður.”