Century Aluminum, móðurfélag Norðuráls, hefur selt helmingshlut sinn í Gramercy Alumina og St. Ann Bauxite til dótturfélaga Noranda Aluminum Holding. Century greiðir lága fjárhæð til Gramercy í tengslum við viðskiptin og Noranda eignast 100% hlutafjár í félögunum tveimur, að því er segir í tilkynningu frá Century Aluminum.

Gengi bréfa Norðuráls í Nasdaq-kauphöllinni hækkuðu um 7,7% fljótlega eftir opnun markaða en hefur síðan gefið eftir og er nú um 4% hærra en við lokun í gær.

Álver Century í Hawesville í Kentucky kaupir allt súrál sitt frá Gramercy og mun semja við Noranda um framhald þeirra viðskipta í takmarkaðan tíma. Í tilkynningunni segir að Century hafi ásamt Noranda keypt fyrirtækin tvö árið 2004. Vegna efnahagskreppunnar hafi verksmiðjur þeirra aðeins starfað á um 40-50% afköstum frá því snemma á þessu ári.

Í tilkynningunni er haft eftir rekstrarstjóra Century, Wayne R. Hale, að þessi viðskipti muni skerpa fókus félagsins á kjarnastarfsemi í álbræðslu og á þau áhugaverðu vaxtarverkefni sem það vinni að, en sem kunnugt er vinnur Norðurál að byggingu álvers í Helguvík.

Haft er eftir Hale að vegna lokunar álvers félagsins í Ravenswood og minnkunar framleiðslu í Hawesville hafi dregið úr þörfinni fyrir súrál. Félagið hafi gert áhugaverða samninga sem muni sjá því fyrir súráli á næstu árum.