Fjárfestingafélagið Kvos, móðurfélag prentsmiðjunnar Odda, hefur selt 51% hlut í búlgörsku prentsmiðjunni Delta. Kvos fjárfesti í Delta fyrir tveimur árum síðan.

Að sögn Birgis Jónssonar, framkvæmdastjóra Kvosar, varð það að samkomulagi að minnihlutaeigandi með þeim keypti þeirra hlut. Að sögn Birgis hafa markaðsaðstæður versnað til mikilla muna í Austur-Evrópu.

Þeir voru í upphafi að leita eftir samlegð við markaðinn í Rúmeníu þar sem Kvos er með mikla starfsemi. Það gekk ekki eftir og því var ákveðið að selja. Að sögn Birgis fer Kvos út úr dæminu á sléttu.

Að sögn Birgir kom í ljós að mjög erfitt var að stunda viðskipti í Búlgaríu og þegar erfiðleikarnir fóru að aukast í Austur-Evrópu ákváðu þeir að selja.

„Þá sáum við okkur ekki fært að vera þarna og við fengum tilboð sem við gripum."

Að sögn Birgis hyggst félagið einbeita sér að starfseminni í Ungverjalandi og Rúmeníu en í haust lokaði félagið starfsemi sinni í Bandaríkjunum. Það er vandamál að komast í lausafé og aðra fjármögnun. Birgir sagði að ekki hefði verið um að ræða stóra einingu og tapið óverulegt. "Það var að fara mikill tími í þetta og við vorum fegnir að loka."