Kröfuhafar Skipta ehf., móðurfélags Símans, hafa að undanförnu reynt að ganga frá samkomulagi sín á milli um framtíð félagsins.

Heimildir Viðskiptablaðsins herma að annað hvort verði samið um endurskipulagningu á skuldum félagsins á næstunni eða kröfuhafar þess taka það yfir. Brynjólfur Bjarnason, forstjóri Skipta, segir félagið í viðræðum við lánardrottna sína sem gangi út á að Skipti greiði skuldir sínar hraðar niður.

Skipti ehf. skuldaði 96,7 milljarða króna um mitt ár 2009. Á sama tíma voru eignir félagsins sagðar 131 milljarður króna. Þar af nam viðskiptavild, sem er óefnisleg eign, 69,5 milljörðum króna.

Skipti á hins vegar rúmlega 20 milljarða króna í reiðufé sem kröfuhafarnir vilja að gangi upp í skuldir þess sem fyrst. Þá er félagið með gott sjóðstreymi og á fyrri hluta ársins 2009 nam sala á þjónustu dótturfélaga þess tæpum 20 milljörðum króna. Um 75 prósent skulda Skipta er þó í erlendum gjaldeyri.

_____________________________

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu í dag. Áskrifendur geta lesið blaðið á pdf-formi hér á vefnum og þeir sem ekki hafa lykilorð geta sótt um það hér .