San Remo rallið árið 1981 markaði tímamót í rallsögunni en þá í tókst hinu unga Audi Sport liði að sigra í heimsmeistaramóti í ralli á fjórhjóladrifnum bíl, Audi Quattro. Þessi sigur átti eftir að valda straumhvörfum í ralli. Kostir fjórhjóladrifsins voru augljósir en Quattroinn var að öðru leyti ekki yfirburðabíll. Hann var þungur og undirstýrði heiftarlega. Vegna reynsluleysis Audi-liðsins var bíllinn ekkert sérstaklega vel smíðaður sem rallýbíll. Það var hin þrítuga Michèle Mouton sem stýrði Quattroinum til sigurs ásamt aðstoðar ökumanni sínum, hinni ítölsku Fabriziu Pons. Þær voru og eru til þessa dags eina kvenáhöfnin til að sigra í heimsmeistaramóti í ralli.

Úr laganámi í rall

Michèle Mouton ólst upp á Frönsku rívíerunni og foreldrar hennar voru rósabændur. Ekkert í æsku Michèle benti til þess að hún myndi eiga glæstan feril í akstursíþróttum þótt hún væri farin að aka Citroën bragga föður síns um landareign þeirra 14 ára gömul. Áhugamál hennar snerust frekar um dans, fimleika og skíði. Hún var í miðju laganámi þegar vinur hennar bauð henni að verða aðstoðarökumaður í Monte Carlo rallinu árið 1973. Hún ók með honum nokkur mót það ár en það var síðan faðir hennar sem stakk upp á því að hún myndi skipta yfir í ökumannssætið. Hann keypti síðar handa henni rallýbílinn Renault Alpine A110. Þegar árið var liðið skartaði hún tveimur titlum. Annars vegar kvennabikar í ralli og hins vegar í GT sportbíla kappakstri auk þess sem hún endaði í tólfta sæti í Korsíku rallinu sem var fyrsta heimsmeistaramótið hennar. Það var því ekki til umræðu að hún myndi snúa aftur í námið.

Allan áttunda áratuginn var hún á uppleið og ók ýmsum bílum eins og Renault, Porsche, Autobianchi og hinum ógurlega Lancia Stratos. Akstursstíllinn hennar einkenndist af óttaleysi og ákveðni. Árið 1978 var hún ráðin til Fiat France liðsins til að aka Fiat 131 Abarth. Mouton var ekki hrædd við að segja skoðun sína á Fiatinum og sagði að hann væri eins og vörubíll í akstri. Þrátt fyrir að henni mislíkaði bíllinn náði hún mjög góðum árangri á honum og kláraði flest röll og var yfirleitt í efstu sætum.

Nánar er fjallað um málið í Eftir vinnu, fylgiblaði Viðskiptablaðsins. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .

Mouton undir stýri á Audi Quattro.

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Hinn ógurlegi Lancia Stratos

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Mouton var aðstoðarökumaður í Monte Carlo rallinu 1973

© Aðsend mynd (AÐSEND)

Síðasta tímabil Mouton var hjá Peugot, og ók hún Peugot 205 T16 1986. Hún varð Þýskalandsmeistari á bílnum.