MP banki þarf að greiða Byr hf. um 400 milljónir króna samkvæmt niðurstöðu héraðsdóms í dag. Byr höfðaði mál á hendur MP banka vegna tveggja hálfs milljarðs króna kúlulána til einahlutafélagsins Hansa, í eigu Björgólfs Guðmundssonar. RÚV greinir frá í dag. MP banki hyggst áfrýja niðurstöðunni.

Málið snýst um aðildarsamning sem gerður var að láninu. Fyrir láninu voru veðsett hlutabréf í Landsbankanum. Byr sakaði MP banka um að selja hlutabréfin fyrir rúmlega hálfan milljarð án þess að greiða Byr 60% upphæðarinnar, tæplega 317 milljónir. Það hafi hann átt að gera samkvæmt samningnum.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að MP banka beri að greiða Byr 317 milljónir auk dráttarvaxta. Alls nemur upphæðin um 400 milljónum króna.