Fjármálaeftirlitið í Litháen gerði á fundi sínum 26. júní athugasemdir við starfsemi MP Banka í landinu á áminnti hann um að fara að lögum. Þar rekur MP Banki útibúið MP Bank Baltic Branch MP sem veitir fjárfestum í Eystrasaltsríkjunum og á Norðurlöndunum fjármálaþjónustu með áherslu á fjárfestingar á fjármálamörkuðum í Austur-Evrópu.

Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri MP Banka, segir málið ekki stórvægilegt. Fjármálaeftirlitið í Litháen sé hins vegar mjög formfast og vill að nákvæmlega sé farið eftir öllum reglum um skráningar á viðskiptum og sjálfsagt að fara eftir því. „Menn brugðust bara við því og lagfærðu þetta,” segir Gunnar.

Að því er fram kemur á vefsíðu MP Banka gerði Fjármálaeftirlitið í Litháen ítarlega úttekt á útibúi bankans í Litháen á fyrri hluta ársins gerði. Á meðal niðurstaða úttektarinnar voru tvær athugasemdir. Annars vegar að eitt ákvæði í viðskiptaskilmálum útibúsins sem varðar sönnunarbyrði á pöntunum, kunni að vera í andstöðu við litháísk lög.  Hins vegar að bankinn hafi ekki fullnægt öllum þeim kröfum sem gerðar eru til vörslu gagna, t.d. voru einstaka viðskiptabeiðnir sem bárust í síma ekki áritaðar um að þær hafi borist í síma. Athugasemdir Fjármálaeftirlitsins í Litháen eru sjálfkrafa sendar til Fjármálaeftirlitsins á Íslandi sem annast eftirlit með MP Banka.

Eins og fyrr segir hefur verið brugðist við athugasemdum eftirlitsins í Litháen.