Sextán fyrirtæki eru starfandi á fjármálamarkaði sem falla undir bankaskattinn. Fyrir 12 þeirra nýtist frískuldamarkið fullkomlega, segir í yfirlýsingu frá MP banka vegna bankaskattsins.

MP banki sá sig knúinn til að senda frá sér yfirlýsingu í ljósi þess að bankinn og nafngreindir starfsmenn hans hafa dregist inn í pólitíska umræðu um frískuldamark á sérstökum skatti á fjármálafyrirtæki.

Yfirlýsingin er hér að neðan í heild sinni:

MP banki er eina litla fjármálafyrirtækið sem greiðir bankaskatt
Sérstakur skattur á fjármálafyrirtæki, svokallaður bankaskattur, er ekki einungis lagður á innlán og hann er ekki aðeins lagður á banka. Bankaskatturinn er lagður á allar skuldir allra fjármálafyrirtækja sem eru viðskiptabankar, sparisjóðir, aðrar lánastofnanir eða aðrir sem fengið hafa leyfi til að taka við innlánum. Skatturinn er einnig lagður á fjármálafyrirtæki í slitameðferð. Í frétta- og málflutningi hefur skipulega verið reynt að telja almenningi trú um að frískuldamark bankaskatts nýtist MP banka betur en öðrum.

Samkvæmt opinberum lista Fjármálaeftirlitins (FME) eru starfandi fjármálafyrirtæki sem falla undir skattstofn bankaskattsins 16 talsins og samkvæmt ársskýrslu FME voru 14 fjármálafyrirtæki í slitameðferð í lok árs 2012. Af starfandi fjármálafyrirtækjum eru þrjú þeirra yfirgnæfandi að stærð. Eigið fé þeirra er um 98% af eigin fé framangreindra starfandi fjármálafyrirtækja. Eftirstandandi tvö prósentustigin skiptast á 13 lítil fjármálafyrirtæki. Fyrir 12 þeirra nýtist frískuldamarkið fullkomlega, það er þau hafa fengið 100% afslátt af bankaskattinum með frískuldamarkinu. Aðeins eitt þeirra, MP banki, fær af einhverjum ástæðum ekki fullan afslátt þar sem frískuldamarkið hefur verið skilgreint undir heildarskuldum bankans.

Hvernig einstaka stjórnmálamenn og fréttamenn fá það út að frískuldamarkið nýtist MP banka betur en öðrum og hafi jafnvel verið sérsniðið fyrir bankann, ber vott um óvönduð vinnubrögð við að kynna sér opinberar upplýsingar.

MP banki hefur ekki valdið ríkissjóði tjóni
Ríkisendurskoðun gaf út skýrslu í júní 2012 um fyrirgreiðslu ríkisins við fjármálafyrirtæki og stofnanir í kjölfar bankahrunsins. Þar eru dregnar saman helstu upplýsingar um framlög og skuldbindingar ríkisins vegna fjármálafyrirtækja og stofnana eftir fall bankakerfisins haustið 2008. Þar kemur fram að verulegir fjármunir voru lagðir í endurreisn stóru bankanna þriggja, Arion banka, Íslandsbanka og Landsbankann auk þess sem lánafyrirgreiðslur til bankanna, bæði víkjandi fjármögnun þeirra og fjármögnun með veði, voru afar hagstæðar. Ríkisendurskoðun rekur einnig fyrirgreiðslu ríkisins til fjárfestingarbanka og sparisjóða sem ýmist var í formi meðgjafar og ábyrgðar eða fólust í hagstæðum endurgreiðslum lána. Metið tap ríkissjóðs og Seðlabanka vegna tapaðra krafna er um 267,2 milljarðar króna og þá eru ekki tekin með vaxtagjöld sem ríkissjóður hefur þurft að taka á sig vegna þessara skuldbindinga.

Í skýrslunni er hvergi minnst á MP banka enda hefur ríkissjóður ekki lagt fé til bankans. Í apríl 2011 keyptu rúmlega 40 fjárfestar rekstur, eignir og skuldir á fullu verði af eigendum gamla MP banka og hafa lagt nýjum banka til tæplega 6 milljarða króna í nýtt hlutafé. Bankinn er því í dag eini sjálfstæði einkabankinn sem ekki hefur hlotið ríkisaðstoð eða er í eigu ríkisins að hluta eða öllu leyti.

Í umfjöllun síðustu daga hefur verið vísað til þess tjóns sem bankinn á að hafa valdið Seðlabankanum með endurhverfum viðskiptum. MP banki greiddi upp endurhverf lán sín að fullu og stóð við allar skuldbindingar sínar gagnvart Seðlabanka og ríki auk þess sem peningamarkaðssjóður MP banka naut ekki ríkisstyrkja eins og peningamarkaðssjóðir föllnu bankanna.

Þótt ofangreindar staðreyndir hafi legið fyrir opinberlega, virðist sem tilteknir fjölmiðlar og stjórnmálamenn hafi af einhverjum ástæðum litið algjörlega fram hjá þeim og í staðinn ítrekað endurtekið sömu rangfærslurnar í fréttaflutningi og opinberum ummælum.

Stjórn MP banka vonast til þess að í framtíðinni verði það sem sannara reynist ofan á í fréttaflutningi og opinberri umræðu um bankann og málefni honum tengd.