MP Banki mun flytja höfuðstöðvar sínar úr Skipholti 50d í Ármúla 13a á nýju ári en í Ármúla 13a voru áður höfuðstöðvar Spron. Aukin starfsemi og vöxtur bankans kalla á stækkun húsnæðis.  Í tilkynningu segir að starfsemi MP Banka hefur vaxið og dafnað á árinu 2009 ekki síst með tilkomu alhliða viðskiptabankaþjónustu og rekstri útibúsins í Borgartúni 26.

Starfsmenn bankans eru nú 75 á Íslandi, þar af 57 í Skipholti 50d þar sem bankinn hefur starfað undanfarin 9 ár. Síðastliðna mánuði hefur verið leitað að hagkvæmu og hentugu húsnæði fyrir starfsemi bankans.

„Í húsinu við Ármúla 13 eru til staðar allar lagnir, öryggiskerfi og tengingar sem tilheyra rekstri banka og því er mjög hagkvæmt að nýta þá fjárfestingu sem þar er fyrir. Ennfremur hentar bæði stærð og staðsetning hússins ágætlega fyrir okkar rekstur og framtíðaráætlanir. Ekki spillir heldur fyrir að við áætlum að geta flutt starfsemina úr Skipholti í Ármúlann á u.þ.b. 2 mánuðum gangi allt að óskum.“ segir Gunnar Karl Guðmundsson, forstjóri MP Banka, í tilkynningu.

Ólafur Haraldsson, framkvæmdastjóri viðskiptabankasviðs bætir við að útibú verði opnað á jarðhæð í Ármúla 13a auk þess sem útibúið í Borgartúni 26 verður áfram óbreytt á sínum stað.