MP banki hefur gert samkomulag við Finasta AB um að taka við starfsemi bankans í Litháen sem lýtur að markaðsviðskiptum og eignastýringu. Aukin áhersla verður hins vegar lögð á uppbyggingu MP Pension Funds Baltic.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá MP banka.

„Við höfum tekið ákvörðun um að snúa okkur alfarið að uppbyggingu lífeyrissjóðarekstursins í Litháen og draga okkur út úr annarri starfsemi. Þar liggur okkar þekking og framtíðarsýn. MP Pension Funds Baltic hefur frá upphafi sýnt framúrskarandi ávöxtun og verið vinsæll valkostur almennings í Litháen fyrir lífeyrissparnað sinn“, - segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, í tilkynningunni.

Þá segir að Finasta AB sé leiðandi fjármálafyrirtæki í löndunum við Eystrasalt með áherslu á eignastýringu, markaðsviðskipti og fyrirtækjaráðgjöf.

Þá segir jafnframt:

„MP Pension Funds Baltic er eina sérhæfða lífeyrissjóðafyrirtækið í Litháen. Félagið rekur bæði annarrar og þriðju stoðar lífeyrissjóði. MP Pension Funds Baltic er litháískt hlutafélag með skrifstofur í Vilníus og Kaunas. Viðskiptavinir MP Pension Funds Baltic eru yfir 36.000 og eru eignir í stýringu á sjötta milljarð íslenskra króna.

Framkvæmdastjóri félagsins er Ramunas Stankevicius og allir starfsmenn félagsins eru Litháar. Í stjórn félagsins hafa verið kjörnir: Jón Sigurðsson, Vygandas Juras, Baldur Oddur Baldursson, Jóhann Tómas Sigurðsson og Tryggvi Tryggvason.“