Hagnaður MP banka á fyrri helmingi árs nam 200 milljónum króna fyrir skatta, samanborið við 681 milljóna króna tap í fyrra. Hagnaður eftir tekjuskatt og bankaskatt nam 119 milljónum.

Í tilkynningu um hálfsársuppgjör bankans kemur fram að öll svið starfseminnar hafi vaxið umtalsvert á árinu. Heildareignir jukust um 43% á fyrri helmingi árs og nema um 72 milljörðum. Útlán og innlán hafa einnig vaxið frá áramótum. Útlán nema nú um 20,7 milljörðum eða um 56% meira en um síðustu áramót. Innlán hafa aukist um 39% og námu 51,1 milljarði í lok júní.

Handbært fé eða ígildi þess nam 28,6 milljörðum í lok fyrri helmingi árs og hækkaði frá áramótum um 147%.

Rekstrartekjur á tímabilinu námu rúmlega 2 milljörðum króna. Þar af voru hreinar vaxtatekjur um 851 milljón og hreinar þóknanatekjur um 623 milljónir. Hlutdeildarfélög, einkum Teris og Gam Management, skiluðu 217 milljóna króna hagnaði.

Fram kemur í tilkynningu frá bankanum að afskriftir útlána séu umfram áætlanir. Afskriftirnar skýrast af sértækri niðurfærslu vegna einnar tiltekinnar eignar sem nýir hluthafar tóku yfir samhliða hlutafjáraukningu í fyrra. Án afskriftanna hefði afkoman verið um 170 milljónum betri, segir í tilkynningunni. Nýr eigendahópur í forystu Skúla Mogensen eignaðist bankann í apríl í fyrra.

Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP, segir í tilkynningu að bankinn vaxi hratt. Það sé ánægjulegt að afkoman hafi verið jákvæð þrjá ársfjórðunga í röð. Fjárfestingabankastarfsemi gangi vel og útlán til atvinnulífsins hafi aukist um 174% á einu ári.