MP banki og hluthafar í ÍV ákveða að hætta vinnu við að sameina félögin. Í maí 2013 hófust viðræður milli aðila á grundvelli tilboðs sem MP banki gerði meirihluta hluthafa. Breyttar forsendur og mismunandi áherslur hafa leitt til þess að aðilar hafa sameiginlega komist að samkomulagi um að hverfa frá viðskiptum þessum. Munu fyrirtækin áfram starfa hvort í sínu lagi og hlúa að þeim markmiðum og áherslum sem þau hafa starfað eftir.

MP banki gerði tilboð í nærfellt allt hlutafé í Íslenskum verðbréfum hf. þann 15. maí síðastliðinn og gekk tilskilinn meirihluti eigenda Íslenskra verðbréfa hf. að skilmálum tilboðsins. Tilboðið var liður í útvíkkun á þjónustu MP banka á sviði eignastýringar. Aðilar töldu sig sjá tækifæri til að styrkja þjónustugrunn félaganna og nýta samlegðarmöguleika til að veita víðtækari og almennari fjármálaþjónustu.

Í tilkynningu frá MP banka og Íslenskum verðbréfum segir að ýmsar forsendur og væntingar hafi breyst frá því að viðræður hófust sem leiði til þess að þau markmið sem upphaflega var sóst eftir muni ekki nást. MP banki mun einbeita sér að frekari uppbyggingu eignastýringar á eigin forsendum eins og áður segir og hverfur frá opnun starfsstöðvar á Akureyri. Góður árangur var hjá eignastýringu bankans á árinu 2013 sem skilaði sér í góðri ávöxtun til viðskiptavina.

Stærsti einstaki hluthafi ÍV er Íslandsbanki með 27,5% hlut.