Hagnaður MP banka á síðari árshelmingi 2014 nam 494 milljónum króna samanborið við 159 milljóna króna tap á fyrri árshelmingi. Afkoma ársins 2014 er því 335 milljóna króna hagnaður eftir skatta, samanborið við 477 milljóna króna tap árið 2013. Þetta kemur fram í tilkynningu frá bankanum.

Rekstrarkostnaður lækkaði verulega

„Vegna umfangsmikilla hagræðingaraðgerða sem gripið var til á fjórða ársfjórðungi 2013 og á fyrri hluta ársins 2014 hefur kostnaður bankans lækkað verulega. Þannig hefur rekstrarkostnaður lækkað um tæpar 600 milljónir króna á milli ára, farið úr 3.669 milljónum króna árið 2013 niður í 3.071 milljónir króna árið 2014. Nemur lækkunin um 16% á milli ára og um 10% á milli árshelminga 2014,“ segir meðal annars í tilkynningunni.

Rekstrartekjur bankans námu 1.836 milljónum króna á síðari árshelmingi, en voru 1.492 milljónir króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Rekstrartekjur ársins í heild námu því 3.328 milljónum króna.

Hreinar þóknanatekjur jukust um 12% á milli árshluta 2014, en þær námu 814 milljónum króna á fyrri hluta ársins og 916 milljónum króna á síðari hluta ársins. Hreinar þóknanatekjur ársins 2014 í heild námu því 1.730 milljónum króna.

Hreinar vaxtatekjur lækkuðu um 7% á milli árshelminga. Þær námu 628 milljónum króna á síðari hluta ársins en voru 674 milljónir króna á fyrri hluta þess. Fyrir árið í heild námu hreinar vaxtatekjur 1.302 milljónum króna. Verulegur viðsnúningur varð í fjárfestingartekjum á milli árshelminga og námu þær 234 milljónum króna á síðari hluta ársins, m.a. vegna söluhagnaðar af eignum bankans í Litháen.

Sterkari eiginfjárstaða

Eigið fé bankans í lok árs 2014 nam 5.597 milljónum króna og heildareignir námu 49.344 milljónum króna. Eiginfjárhlutfall bankans hefur hækkað um 3,2 prósentustig á árinu og var 17,4% í árslok 2014, samanborið við 14,2% í árslok 2013.

„Eiginfjárstaðan er sterk og vel umfram innri viðmið bankans og kröfur eftirlitsaðila, bankinn er auk þess vel í stakk búinn að mæta þeim kröfum um eiginfjárauka sem innleiddar verða í náinni framtíð. Lausafjárstaða bankans er áfram góð og hlutfall lausafjáreigna af heildareignum 49%. Lausafjárþekja (LCR) var 133% í lok árs,“ segir í tilkynningunni.

Endurskipulagning gengið vel

„Ég er mjög ánægður með árangurinn af umbreytingarferlinu sem við fórum af stað með á síðasta ársfjórðungi 2013. Við höfum náð að endurskipuleggja rekstur MP banka en á sama tíma bæði eflt hann og haldið fjárhagslegum styrk. Það er gaman að sjá árangurinn af því starfi og viðvarandi hagnað af rekstri MP banka á seinni helmingi árs 2014,“ segir Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, um uppgjörið.