MP banki skilaði 251 milljóna króna hagnaði í fyrra samanborið við um 484 milljónum króna tap árið 2011.

Fram kemur í uppgjöri bankans að hagnaður fyrir tekju- og bankaskatt nam 184 milljónum króna. Þá nam hagnaður MP banka fyrir sértækar afskriftir og tekju- og sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki var 742 milljón krónur. Fram kemur í uppgjörinu að sértækar afskriftir í fyrra tengjast alfarið eldra eignasafni bankans, þ.e. lánum sem veitt voru fyrir endurskipulagningu bankans í apríl 2011.

Vöxtur á flestum sviðum

Hreinar rekstrartekjur námu 3.995 milljónum króna og er það rúm tvöföldun á milli ára. Þær námu 1.830 milljónum króna árið 2011.

Þá námu hreinar vaxtatekjur 1.716 milljónum króna í fyrra samanborið við 459 milljónir króna árið 2011. Hreinar vaxtatekjur hafa því vaxið um 274% á milli ára. Hreinar þóknanatekjur námu 1.395 milljónum króna í fyrra samanborið við 776 milljónir árið á undan. Hreinar fjárfestingatekjur námu 637 milljónum króna í fyrra og hlutdeildarfélög skiluðu 217 milljóna króna hagnaði.

Heildareignir MP banka námu 69 milljörðum króna um síðustu áramót og var það 39% aukning á milli ára. Útlán rúmlega tvöfölduðust og námu 28 milljörðum króna í árslok. Innlán jukust jafnframt um 34% á tímabilinu og námu 49 milljörðum króna, að meðtöldum peningamarkaðsinnlánum.

Lausafjárstaða bankans er áfram sterk en bankinn hafði 20,3 milljarða króna í handbæru fé eða ígildi þess við lok tímabilsins. Hækkunin frá fyrra ári nemur 76%.

Eiginfjárhlutfall bankans var 10,8%, sem er vel yfir 8% lögbundnu lágmarkshlutfalli. Lækkun eiginfjárhlutfalls skýrist af auknum útlánum til atvinnulífsins en fjöldi fyrirtækja í viðskiptum hefur aukist um 26% á árinu, að því er segir í uppgjörinu.