Sigurður Atli Jónsson, forstjóri MP banka, segir bankann hafa áhuga á því að stækka með því að kaupa lánasöfn, annað hvort af þrotabúum eða frá eignasafni Seðlabankans. Hann segir í ítarlegu viðtali við Viðskiptablað Morgunblaðsins að MP banki eigi nú þegar í góðu samstarfi við sparisjóðina og veiti þeim heildsölubankastarfsemi í formi greiðslumiðlunar.

„Varðandi gerjun og umbreytingar á fjármálamarkaði þá sjáum við okkur sem þátttakanda og geranda,“ útskýrir hann, og vísar til þess að bankinn hafi meðal annars áhuga á því að stækka með því að ráðast í kaup á lánasöfnum sem bjóðist til sölu, hvort sem um sé að ræða lánasöfn í þrotabúum eða eignasafni Seðlabankans. „Við höfum mjög mikinn áhuga á því að ganga til viðræðna vegna kaupa á slíkum lánasöfnum og við sjáum ekki, að því marki sem slík lánasöfn þurfa þjónustu viðskiptabanka, að það sé neinum öðrum til að dreifa en okkur og svo sparisjóðunum vegna þeirra takmarkana sem stóru viðskiptabankarnir hafa gengist undir.“

Það leikur ennfremur enginn vafi á því að MP banki sér fram á ýmis tækifæri samfara þeim eigendabreytingum sem er fyrirséð að verði í náinni framtíð hjá stóru viðskiptabönkunum. „Núverandi eignarhald er auðvitað einungis til bráðabirgða,“ segir Sigurður Atli, og bætir við, „að það sé vafalaust miklum vafa undirorpið hvort þeir geti í raun talist hæfir eigendur,“ og vísar þá til þeirra erlendu kröfuhafa, að stærstum hluta vogunarsjóðir, sem eiga meirihluta í Arion banka og Íslandsbanka.